Hver á að gæta velferðar landsins?

 

Miklar áskoranir bíða okkar í umhverfismálum heimsins og velferð okkar jarðarbúa er komin undir því hvernig til tekst með að leysa þær.

Mest er talað um loftslagsbreytingar af manna völdum. Þær eru mál málanna í dag.

Minna fer hins vegar fyrir umræðu um ástand lands í heiminum og þá staðreynd að jarðvegur og ástand vistkerfa ráða miklu um það hvort það tekst að sporna nægjanlega gegn hlýnum jarðar – og einnig hvort það takist að framleiða næg matvæli til að fullnægja þörfum okkar í framtíðinni. Við stöndum frammi fyrir mestu áskorun allra tíma.

Hnignun jarðvegs og gróðurs er ein mesta ógn jarðarbúa

Frjósamt land er undirstaða velferðar okkar. Framleiðsla á meira en 90% af fæðu manna og fóðri búfjár er komin undir hinum takmarkaða jarðvegsforða heimsins. Jarðvegur er því grundvöllur menningarsamfélags allra þjóða.

Mannkynssagan er hins vegar saga baráttu gegn eyðingu jarðvegs. Í þúsundir ára hafa skipst á ris og hrun menningarríkja. Sýnt hefur verið fram á að hnignun landkosta hefur orðið þeim flestum að falli.

Manninum hefur ekki verið gefið að lifa í sátt við náttúruna, hann hefur eytt skógum, ofbeitt jörðina og brotið of viðkvæmt land til ræktunar.

Hættumerkin blasa við. Fyrir nokkrum árum var talið að um fimm milljarðar tonna af jarðvegi glötuðust á ári hverju, eða um tonn á hvert mannsbarn í heiminum. Nú er hins vegar talið að jarðvegseyðingin sé í reynd miklu meiri og að minnsta kosti 20 milljarðar tonna af jarðvegi glatist á ári vegna rofs af mannavöldum. Þetta eru uggvænlegar tölur og spurningin um það hvort nóg verði til að borða verður æ áleitnari.

Þrátt fyrir endurteknar viðvaranir í áranna rás kemur það manninum sífellt á óvart að hann skuli hafa leitt náttúruna í vistfræðilega gildru vegna vanþekkingar og græðgi. — Náttúran hefur svarað með því að senda okkur mönnunum lokatilkynningu; nú verðum við að greiða skuldina við móður jörð og ákveða hvernig, en ekki hvort, við gerum það.

Tíminn skiptir máli. Eina leiðin til að tryggja nægan fæðuforða fyrir ört fjölgandi mannkyn er að sigrast á eyðingunni, og það verður að gera hraðar en eyðingaröflin vinna. Ella höfum við ekki undan og vandinn verður óviðráðanlegur.

Viðhorfin til landsins

Við Íslendingar þekkjum vel afleiðingar langvarandi landhnignunar.

Í aldanna rás hélt landinu áfram að hnigna jafnt og þétt. Lífsbaráttan var hörð og sjaldan verður vart við að menn sakni náttúrugæða og horfinnar fegurðar. Þó ber svo við stöku sinnum, eins og harmur huldumannsins yfir eyðileggingu fagurvaxins viðarrunna ber vitni um:

Faðir minn átti fagurt land

er margur grætur;

því ber ég hryggð í hjarta mér

um daga og nætur.

Við höfum litið á landið sem eign til að nota, meðan enn var eitthvað „bjarglegt“ og „nýtilegt“, svo að vitnað sé til algengra lýsinga í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Kostnaðurinn við að framfleyta þjóðinni á tímum fátæktar og fáfræði var mikill og núlifandi kynslóð situr uppi með skaðann.

Það var guðfræðimenntaður búfræðingur sem átti hvað drýgstan þátt í að ryðja braut umhverfisverndar á Íslandi; Sæmundur Eyjólfsson. Hann ritaði árið 1896 afar athyglisverða hugleiðingu „um þann hugsunarhátt og þau einkenni Íslendinga á liðnum öldum, er mestu hafa ráðið um meðferð þeirra á landinu.“

Niðurstaða Sæmundar er sú að viðhorfin gagnvart landinu skipti öllu máli; að það gildi um hverja einustu jörð á landinu að hún spillist eða taki framförum eftir því hvernig hugsunarhætti ábúendanna er háttað.

Þessi speki á raunar við enn í dag – og gildir um alla verndun náttúrunnar.

 

Guðinn í landinu

Að mati Sæmundar kemur einnig fram að menning og trú ráða miklu um viðhorf til landsins.

Níutíu árum síðar rekur Brian Roberts, sem telja má einn meginupphafsmann nýrra tíma í landgræðslustarfi heimsins, ýmsar hliðar á grundvallarspurningunni „hver á að vera talsmaður landsins?“

Hann veltir meðal annars fyrir sér trú og menningu í leit að skýringum á meðferð manna á landinu. Forn heiðin trúarbrögð, – þegar menn trúðu á stokka og steina og andann í landinu, – og trúarbrögð Asíu – einkennast af því að maðurinn er hluti afnáttúrunni. Í kristinni trú verður maðurinn herra jarðarinnar og náttúran á að þjóna honum. Einkum hafa afleiðingarnar af þessu hásæti mannsins verið að ágerast síðustu tvær aldirnar eða þann tíma sem það hefur tekið nútíma vísindi að hasla sér völl.

Í tímamótagrein sinni, sem birtist í Ástralíu 1986, telur Brian meðal annars að rætur vistkreppu heimsins liggi að hluta í viðhorfum vísinda og kristninnar til náttúrunnar. Á sama hátt liggi lausnin í því að siðferði ráðsmennsku verði sjálfgefinn hluti trúariðkunarinnar.

Trú hefur haft og hefur enn mikil áhrif á viðhorf manna og athafnir á ýmsum sviðum. Í ritgerð sinni Líf í ljósi Guðs fjallar séra Sigurður Ragnarsson (árið 1997) um kristna trú og viðhorf til umhverfismála. Þar kemur fram að hinir trúuðu Hebrear til forna nefndu hið fullkoma jafnvægi lífs og tilveru shalom. Það jafnvægi nær yfir það sem er í stöðugu jafnvægi í náttúrunni og mun vonandi verða svo um ókomna tíð.

Niðurstaða Sigurðar er sú að aðgerðir til að bjarga heiminum þoli enga bið og að þá fyrst geti ráðsmaður guðs orðið sáttur við hlutverk sitt er hann hefur lært að skilja til fulls ábyrgð sína og mikilvægi þess að gæta jafnvægisins mikla, – sem felst í hugtakinu shalom.

Þetta skyldi vel leiðtogi að nafni Hugh Bennett, sem telja má „föður jarðvegsverndar“ í heiminum, en hann var fyrsti framkvæmdastjóri bandarísku landgræðslunnar. Hann höfðaði mjög til siðferðilegrar skyldu þjóðarinnar til að gæta landkosta sinna. Í kirkjunni boðaði hann að það væri heilög skylda hverrar kristinnar veru að gæta landsins og varðveita frjósemi þess.

Bandaríski rithöfundurinn og náttúruunnandinn Aldo Leopold er af mörgum talinn faðir „land-siðfræðinnar.“ Með hans orðum, þá felur verndun í sér „jafnvægi milli manns og lands. Með landi er átt við allt sem er á, yfir og í jörðinni“.

Þetta er í raun eitt megininntak Ríó sáttmálans, sem olli straumhvörfum í umhverfisvernd, og að slíku jafnvægi þarf allt náttúruverndarstarf að miða. Það táknar um leið að allir landsmenn verða að láta sér annt um framtíð landgæða, hvort sem þeir nýta landið sér til framfærslu eður ei.

 

Siðferði ráðsmennsku

Aldo Leopold, sem að ofan er getið, lét svo ummælt fyrir um 70 árum: „Við misbjóðum landinu vegna þess að við lítum á það sem eign sem tilheyrir okkur. Þegar við lítum á landið sem samfélag sem við tilheyrum förum við að nýta það með ást og virðingu“.

Við þurfum með öðrum orðum að koma á siðferði ráðsmennsku; að okkur beri öllum skylda til að vernda og bæta landið til fulls. Við erum hér ekki einir á báti, fjarri því. Fjöldi þjóða fæst við sama vanda og leitar sömu lausna. Það blasa stórkostleg viðfangsefni við framundan í vernd náttúruauðlinda, velferð mannkyns er í húfi.

Hvað okkur Íslendinga varðar eru miklir hagsmunir í húfi, miklu stærri og fjölþættari en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Siðfræði verndunar þarf að efla, í öllum geirum samfélagsins. Mig langar til að nefna hér dæmi, eitt af fjölmörgum, um algengt viðhorfsleysi til náttúrunnar úr þeirri atvinnugrein sem nú skapar þjóðarbúinu mestra tekna; ferðaþjónustunni.

Ísland er purkunarlaust kynnt sem landið þar sem allt má. Hvers vegna kynna margir ferðaþjónustuaðilar, bílainnflytjendur, jafnvel bankar o.s.frv. Ísland purkunarlaust sem landið þar sem allt virðist leyfilegt. Algengt er að sjá akstur utan vega, nýtingu á annarra landi án heimildar, traðk á viðkvæmum gróðri og margvísleg önnur umhverfisspjöll sem kynningarstef á vefsíðum fyrirtækja í ferðaþjónustu. Rekum jafnvel skóla fyrir lengra komna í utanvegaakstri, „Off road academy“ og einn bankinn leiðbeinir fólki, reyndar fótósjoppað, með akstur ofan í hverina, viðkvæmustu djásn landsins. Umhverfisvitundin, eða siðferði verndunar, virðist eitthvað úti að aka! Þjösnaganginum gegn okkar ofur viðkvæmu náttúru, undirstöðu ferðaþjónustunnar verður að linna.

 

Hver á að gæta sauða minna?

En hverfum aftur til landkosta á Íslandi.

Sir Francis Bacon lét svo um mælt endur fyrir löngu að ef við ætlum okkur að stjórna náttúrunni, verðum við að hlýða henni. Gerum við Íslendingar það? Af hvaða orsökum er jarðvegsrof enn vandamál þrátt fyrir næstum 110 ára starf? Hefur ekki verið tekið fyrir rætur hnignunarinnar? Hefur verið of illa búið að landgræðslustarfinu?

Landnýting hefur meiri áhrif á ástand vistkerfa okkar en nokkrar aðrar mannanna gerðir. Grundvöllur þess að koma í veg fyrir hnignun landkosta er því einfaldur, það verður að nýta landið innan þeirra marka sem það þolir. Með öðrum orðum að landnýtingin sé sjálfbær.

Því fylgja ýmsar veigamiklar siðferðilegar spurningar.

Hver er t.d.réttur búfjáreigenda til að nýta land sem er að eyðast? Hver er réttur samfélagsins til verndunar? Hverjar eru skyldur okkar til að friða eyðingarsvæði fyrir búfjárbeit? Þar sem jarðvegseyðing herjar er búfjárbeit nær alltaf beinn orsakavaldur í eyðingunni.

Af sama meið er ábyrgð eigenda á gripum sínum. Hver er réttur búfjáreigenda til að beita land granna sinna án heimildar? Er það grannans að verja sitt land? Hvers er hin raunverulega ábyrgð þegar hross hlaupa fyrir bíl á dimmum haustdegi? Það mætti lengi telja, en lausaganga búfjár er eitt af meinum nútímans.

Okkur Íslendingum hefur gengið hægt að laga lög og reglur að nútímanum. Hinn siðferðilegi grunnur virðist of veikur.

Vits er þörf – öflugt fræðslustarf er undirstaðan

Við erum með landið að láni og ber að gæta þess frá einni kynslóð til annarrar. Gerðir okkar mannanna mótast af viðhorfum, viðhorfin mótast af þekkingu. Fræðsla er því ein styrkasta stoð nútíma náttúruverndar.

Mikilvægasta framlag umhverfisfræðslu er að hún mótar það sem kalla mætti siðfræði ábyrgðar. Í því felst ábyrgð gangvart vistkerfum okkar, náttúrunni, samfélaginu og sköpuninni. Slík fræðsla leiðir einnig af sér skýran greinarmun á skoðunum og siðferði. Skoðun veitir óáreiðanlega leiðsögn, en siðferðisvitund veitir okkur kvarða sem auðveldar forgangsröðun, gildismat og gangrýni viðkenndra gilda.

„Hvað ungur nemur, gamall temur.“ Því er nauðsynlegt að móta snemma viðhorf umhverfisverndar og skilnings einstaklingsins á því að verndun náttúrunnar er jafnt hans mál og annarra.

Sænski grasafræðingurinn Linné lét svo ummælt endur fyrir löngu að það yrði að ná til barnanna áður en þau yrðu fjögurra feta há, annars væri hausinn kominn of langt frá jörðinni! Slíkt mótar landlæsi, á því æviskeiði þegar hugurinn er móttækilegastur fyrir nýrri þekkingu.

Hver á að gæta velferðar landsins?

Spurt er Hver á að gæta velferðar landsins?

Svarið er einfalt. Þeir sem nýta landið eiga að vera ábyrgðir fyrir því að það skemmist ekki af þeirra völdum. Þetta gildir um allar nytjar að landi, hverjar sem þær eru og hver svo sem tilgangurinn er með notunum. Það er síðan samfélagsins alls, undir forystu stjórnvalda, að tryggja árangursríkar og hagkvæmar leiðir að þeim markmiðum sem sett eru.

Hver og einn getur lagt sitt af mörkum. Grundvöllurinn er að hlúa að umhverfissiðferði, veita fræðslu og hvatningu og fá sem flesta til þátttöku í náttúruverndarstarfinu.

Með öðrum orðum; takmarkinu verður þá fyrst náð þegar verndun umhverfisins er orðin sjálfsagður og eðlilegur þáttur í daglegri hegðun og gerðum okkar allra.

Andrés Arnalds

Erindi flutt á málþingi um umhverfismál, „Af jörðu ertu kominn…“

Skálholt 10. nóvember 2015