Erindi Jóns Sigurðssonar á Skálholtshátíð 2015 um Ragnheiði Brynjólfsdóttur

Erindi Jóns Sigurðssonar á Skálholtshátíð 2015 um Ragnheiði Brynjólfsdóttur

Sækja pdf 2015Shátíð-Jón Sigurðsson Ragnheiður

Ágætu tilheyrendur.

Í ljóðaflokknum Eiðnum reyndi Þorsteinn Erlingsson að ímynda sér hugblæinn í lífi Ragnheiðar Brynjólfsdóttur sumarið 1661. Þorsteinn kveður um þetta:

Nú máttú hægt um heiminn líða,

svo hverju brjósti verði rótt,

og svæfa allt við barminn blíða,

þú bjarta heiða júlínótt.

Þorsteinn sér Ragnheiði fyrir sér á þessum dægrum:

Hún Ragnheiður fyllir átján ár,

er yndið í föðurranni,

og fögur var hönd, en fótur smár,

og fegri var enginn svanni,

sem unnt hefur ungum manni.

Þorsteinn lýsir hugsunum föður hennar, Herra Brynjólfs biskups Sveinssonar:

Hann hafði ekki séð það, en sá það í dag,

það sagði hvert einasta sporið,

að Ragnheiður hefði þann höfðingjabrag,

að hún gæti kórónu borið.

Hún bar þetta mannsbragð, sem mest ríður á,

og móður hans herðar og vanga.

Hann var ekki á alþýðu svipurinn sá,

og svo mundi kóngsdóttir ganga.

———

,,Með því svo er tilfallið sem fallið er, hvað guð náði og forbetri“. Með þessum orðum hefst vottorð þriggja klerka, dagsett 19. febrúar 1662, um barnsburð Ragnheiðar Brynjólfsdóttur fjórum dögum áður, 15. febrúar 1662. Þegar Herra Brynjólfi biskupi Sveinsyni, föður hennar, var sagt frá þessu þagði hann við og fór síðan með orð Psammetikusar Egyptalandskonungs þegar honum var sagt að dóttur hans hefði verið kastað fyrir krókódíla í Nílarfljóti: ,,Mala domestica maiora sunt lacrymis“: Fjölskyldusorgir eru þyngri en tárum taki.

Ragnheiður Brynjólfsdóttir, einkadóttir þessa kirkjuhöfðingja, sór opinberlega heilagan eið í Skálholtsdómkirkju 11. maí 1661, 19 ára gömul, að hún hefði ekki karlmanns kennt. Rúmum níu mánuðum síðar ól hún son utan hjónabands.

Kynslóðum saman hafa menn, konur sem karlar, spurt: Hvað var kirkjan eiginlega að skipta sér af slíku máli? Kunna menn einhver fyrirmæli frá Jesú Kristi sem skýri slík afskipti? Menn þekkja auðvitað ákvæði lögmálsins en fagnaðarerindi Frelsarans átti að leysa undan hörðum viðjum þess – eða hvað? Ástæða er til að minnast þess sem Frelsarinn sagði um bersyndugu konuna: ,,Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið.“ Og síðan segir hann beint við hana: ,,Syndir þínar eru fyrirgefnar.“(Lúk.7,39) Um konu sem átti að grýta fyrir hórdóm sagði Kristur: ,,Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og við hana sjálfa sagði hann síðan: ,,Ég sakfelli þig ekki heldur.“ (Jhs.8,4)

Hvers konar afskipti voru þetta þá eiginlega? Hvaða athæfi var þetta? Dómkirkjan og sjálfur faðir ungu konunnar standa yfir henni með umvöndun og ásökun.

Kristnin er ekki aðeins innileg persónuleg trú heldur líka siður í heilu samfélagi. Samfélögin móta sér siðareglur sem hljóta lögmæti og löghelgun af trúarboðskapnum, en eru þó margar fyrst og fremst veraldlegar og jarðneskar siðahefðir, sumar miklu eldri en kristnin sjálf. Á sautjándu öld var kirkjan ekki síst veraldleg valdstofnun og meðal merkustu verkefna hennar var að veita veraldarvaldi konungsins lögmæti og löghelgun af hæðum. Verkaskipting konungs og kirkju studdist við kenningar Marteins Lúthers um fylkin tvö, regimentin tvö. Annað þeirra var andlegt, kirkjuvaldið, en hitt veraldlegt, konungsvaldið. Bæði nutu löghelgunar af hæðum, og konungurinn stýrði báðum. Siðbótin greiddi keisaranum það sem keisarans var og galt með sjálfræði sínu fyrir stuðning furstanna.

Fjölskyldumál, einkalíf, fræðslumál, hjónabönd og barneignir lutu að miklu leyti regimenti kirkjunnar. Að almennu mati á 17. öld var mannkynið fyrst og fremst þeir karlmenn sem voru forstöðumenn heimila, húsbændur, með eigin tekjur og einhverjar eignir. Í mesta lagi um 5% landsmanna áttu bújarðir og þar af átti 1% langmest, um fjórðung allra bújarða og fór að auki með umsjón og yfirráð rúmlega helmings allra bújarða, þ.e. kirkju- og konungsjarðir. Þetta eina hundraðsbrot réð sem sagt beint yfir meira en 75% allrar lífsbjargar í landinu og auk þess öllum valdaembættum, og svona mun þetta hafa verið fram á nítjándu öld.

Gróflega mætti sjálfsagt leyfa sér að álíta að nálægt fimmti hver uppvaxinn karlmaður á Íslandi hafi haft einhvers konar réttindi. Aðrir báru aðeins skyldur. Samfélagið var hneppt í strangar viðjar. Þar var miskunnarlaus stéttaskipting annars vegar og hins vegar skorturinn og náttúrulegar aðstæður sem ekki voru síður grimmilegar þegar illa áraði.

Yfirgnæfandi meirihluti karlmanna beygði sig undir þetta ok. En konur stóðu ekki aðeins andspænis áhrifum og veruleika stéttaskiptingar og skorts. Á þær var ekki litið sem fullgildar mannverur, nema aðeins ekkjur af yfirstétt sem stóðu fyrir búi. Helga Magnúsdóttir matróna í Bræðratungu er fulltrúi þeirra í þessari sögu, frænka Brynjólfs biskups. Að öðru leyti voru konur aukaverur sem gegndu því hlutverki að ala börn, sjá um börn og sjúka, vinna húsverk, aðstoða og bera körlum fæði. Og yfirstéttarmæður áttu að tryggja erfingja, arf og eignir, jarðir og valdastöður.

Það var meðal skyldustarfa prestanna að finna föður þegar uppvíst varð um óheimilan þunga hjá konu. Þetta hét að finna lepp. Ef leppur fannst komst samfélagið hjá málarekstri og refsingum. Það var leitað að ókvæntum karlmanni sem gæti tekið móðurina og barnið að sér sem leppur. Venjulega þurfti ekki að leita að blóðföður og oft þurfti presturinn alls ekki að leita neitt sjálfur í því efni. Í Paradísarheimt er saga um vandræðin sem gátu orðið ef stúlkan fór að færast undan því að segja til, og Guðbjartur Jónsson í Sumarhúsum er auðvitað frægasti leppur Íslandssögunnar.

Það varð ekki um neina leit að lepp að ræða í sögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur. Ástir þeirra Daða Halldórssonar voru í almæli, og þau fóru hvorugt dult með þetta þegar barnið var fætt. En hér var margþættur veraldlegur og jarðneskur vandi kominn upp. Dómkirkjupresturinn hafði gerst brotlegur um sama brot um þetta sama leyti. Og sjálfur hafði Daði áður gerst brotlegur og átti annað eins líka í vændum síðar sama árið. Daði, fæddur 1636 og fimm árum eldri en Ragnheiður, var þetta alkunna algera eftirlæti biskupsins sem alltaf fékk náð og fyrirgefningu biskups. Hann fékk ævinlega uppfylltar óskir sínar um alla hluti stóra og smáa svo að allir sáu til á Skálholtsstað. Að lesanda heimildanna læðist sá grunur að Daða hafi verið spillt með eftirlætinu.

Og nú var biskupinn og faðirinn Brynjólfur í klípu. Staðurinn stendur á öndinni og spyr: Hvað gerir biskup nú? Gilda drottinhelgaðar siðareglur fyrir alla eða bara suma? Guggnar biskup fyrir eftirlætinu, einkadótturinni og uppáhalds-klerkinum? Hvað verður um siðavendni Herra Brynjólfs? Hverju ráða siðareglur samfélagsins nú? Hver er séra hvað og hver er ekki séra hvað? Og menn spurðu líka: Hvernig klórar Daði karlinn sig nú fram úr þessu? Hefur hann ekki þuklað sig aðeins of langt í þetta sinn? Hvernig fer þegar refurinn bítur svo nærri greninu? Fær Daði nú loksins makleg málagjöld? hafa sumir hugsað.

En þetta var ekki barnsburður fátækrar umkomulausrar vinnustúlku. Hér var heiður og staða merkra höfðingja í húfi. Hvað verður um stöðu fjölskyldunnar, ættarinnar, hvað um eignir og erfðir? Menn voru nefnilega ekki fyrst og fremst að hugsa um afstöðu Frelsarans, heldur voru hér nærtækar jarðneskar áhyggjur um virðingu, auð og völd og þeim varð ekki frestað til annars heims. Athafnir Brynjólfs biskups og bréf vegna mála Ragnheiðar, dóttur hans, sýna að hann bar gott skynbragð á þetta.

Fæðingar í yfirstéttarfjölskyldum voru mikið alvörumál. Eigin jarðeignir voru auðvitað erfðamál. Umboð yfir eignum konungs og kirkju voru tengd erfðum og einkahygli, og sama átti við um embættisframa. Staða yfirstéttarkvenna markaðist af þessu. Á árunum 1661 og 1662 sóru þannig nokkrar aðrar yfirstéttarkonur eiða eins og Ragnheiður, að ekki séu nefndir þeir klerkar sem misstu hempuna á þessum tíma.

Fræðimenn hafa jafnan gefið því verðugan gaum hvílíkur lærdómsmaður Herra Brynjólfur biskup Sveinsson var. Í föðurætt var hann kominn af góðum klerkum og lögmönnum. En hann var ættarlaukur Svalberðinga í móðurkyn. Jón ríki Magnússon á Svalbarði var langafi hans og Ragnheiður á rauðum sokkum langamma. Staðarhóls-Páll var afi hans, Herra Jón biskup Arason var langalangafi hans. Hann var í beinan karllegg kominn af Lofti ríka og Ólöfu ríku að Skarði. Margrét biskupsfrú Halldórsdóttir var líka af lögmönnum komin og afkomandi Jóns Arasonar.

Í stéttskiptu ættasamfélagi þessa tíma stóð Herra Brynjólfur á hæsta þrepi. Vísi-Gísli Magnússon sýslumaður gerði á þessum sama tíma tillögu um að þrjár ættir, þar á meðal Svalbarðsætt, fengju formleg aðalsréttindi á Íslandi. Miðað við mannfjölda og samanborið við Noreg er þetta mjög ríkulega boðið, enda varð aðall ekki formleg staða á Íslandi og formleg aðalsbréf til Íslendinga urðu líklega ekki fleiri en fimm talsins alls. Helst er talað um Svalbarðsætt, Skarðsætt, Árnaætt, Klofaætt, Þórðarætt, Gíslunga, svo og afkomendur Hannesar Eggertssonar og afkomendur séra Einars í Heydölum. Og allar þessar ættir voru náskyldar innbyrðis, eins og títt var um höfðingja í öllum löndum.

Eins og á stóð var mikið undir því komið hvað um Ragnheiði kynni að verða, hverjum hún yrði gefin og hvernig til tækist um það allt. Hún var elst og Halldór bróðir hennar á milli vita, en nokkru síðar fór hann reyndar til Englands og dó þar ungur. Ragnheiður var sjálf auðvitað ekki á dagskrá eða hvað henni leið eða fannst, heldur aðeins staða hennar sem yfirstéttarkonu. Biskupshjónin höfðu eignast sjö börn. Fimm létust við fæðingu eða fæddust andvana, en sem löngum fóru dauðinn og sjúkdómarnir ekki í manngreinarálit og virtu enga stéttarhagsmuni.

Þorsteinn Erlingsson kveður:

Þann ellefta maí leið morguninn seint;

á mönnum var kyrrlátur hátíðabragur,

og fólk hafði kembt sér og farið í hreint,

því fannst sem það væri ekki rúmhelgur dagur.

Og áfram segir Þorsteinn um þetta:

Hann Brynjólfur í sitt guðshús gekk,

og guði var trú hans sönn og þekk;

og Mammon þá hefðarhósta fékk;

hann hafði þar sæti í innsta bekk – í leyni.

Og enn kveður Þorsteinn í Eiðnum um sjálfa eiðtökuna:

Sem aðalsskjal var ennið bjart og breitt,

og brún og upplit djarft til viljans sagði;

í hreina svipnum átti hún ekki neitt

af uppskafningsins tamda þóttabragði;

en ættarblóðið undir, ríkt og heitt,

á opnar varir sterkan roða lagði.

Hvað þar tók fastast vissu flestir varla,

en vald það eða fegurð greip þá alla.

———

Eitt er það, og það skiptir máli, að þetta var augljóslega nauðungareiður sem Ragnheiður sór. Annað er að óneitanlega er sú tilgáta heillandi að Svalberðingurinn Ragnheiður, dóttursonardóttir Helgu Aradóttur, afkomandi Ragnheiðar á rauðum sokkum og Ólafar ríku, hafi ekki svarið rangan eið heldur hafi hún tekið örlögin í sínar eigin hendur eftir eiðtökuna.

Ef hæfa er í þessari tilgátu, þá er þetta stefnuákvörðun í tilvistarspekilegum skilningi í lífi þessarar ungu konu. Og þá verða sorgir hennar og áhyggjur síðasta árið sem hún lifði ennþá sárari.

En hitt verður líka að segja: Þessar athafnir í Skálholti, eiðtaka Ragnheiðar Brynjólfsdóttur 11. maí 1661 og aflausn hennar 20. apríl 1662, koma boðskap Frelsarans lítið við en fylgja ævafornum ættahefðum evrópskra höfðingjaætta til þúsunda ára. Ríkiskirkjan átti að framfylgja þeim og annað kom ekki til álita. Þetta voru grjótharðar veraldlegar hagsmuna- og valdsathafnir. Um þær verður sagt með orðum Helga Hálfdanarsonar: Jesús grætur, heimur hlær – .

———————————————————————

Brynjólfur Sveinsson 14.9.1605-5.8.1675

Margrét Halldórsdóttir 4.12.1615-21.7.1670

3 börn fædd andvana, 2 börn létust strax óskírð

Ragnheiður 8.9.1641-23.3.1663

Halldór 8.12.1642-1666

Þórður Daðason 15.2.1662-14.7.1673

————————————————————————–

Heimildir:

Biblían: Lúkasarguðspjall 7,39; Jóhannesarguðspjall 8,4.

Brynjólfur Sveinsson. 1942. Úr bréfabókum Brynjólfs biskups Sveinssonar. Jón Helgason bjó til prentunar. Safn         Fræðafélagsins XII. Kmh. 123.-133.bls.

– Eidur Ragnheidar Brynjolfzdottur (123.bls.)

– dagsetning eiðs 11. maí 1661.

– Sedill fra Skalhollte vm barns faderne… (128.bls.)                             – dagsetning fæðingar 15.2.1662.

– Svar Dada Halldorssonar vppa þenan sedil (128.bls.)                         – játning Daða.

– Sattmala bref milli biskupsins M Brynjolfs SSonar         og S. Halldors Dadasonar… (129.bls.)

– um bætur o.fl.

– Arftaka og skilmali biskupsins M Brynjolfs Sveins        sonar vid Ragnheidi Brynjolfss dotter 1662                 (133.bls.)

– dagsetning aflausnar 20.4.1662.

Ein Kyrkiu Ordinantia. 1635. Hólum. (íslensk þýðing Odds      biskups Einarssonar).

Guðmundur Kamban: Daði Halldórsson og Ragnheiður Brynjólfsdóttir. Skírnir 1929; 103. árg. (36-83.bls.)

Helgi Hálfdanarson. 1997. Sálmabók íslensku kirkjunnar. R.     188.bls.

Helgi Þorláksson: Saga Íslands VI 2003. R. 131, 237-248,       267,bls.

Íslenskar æviskrár I. R. 286-287, 301.bls.

Jón Espólín. 1828. Íslands Árbækur á söguformi. VII.deild.      VI.hluti. Kmh, 29-30.bls.

Jón Halldórsson. 1903-1915. Biskupasögur Jóns Halldórssonar             prófasts í Hítardal með             viðbæti. R. 291-293, 295,        299.bls.

Jón Sigurðsson. 2011. Mikilhæfur höfðingi. R. 18-19,

33-34.bls.

Jón Sigurðsson. 2013. Eigi víkja. R. 162-163, 222-223.bls.

Lífssaga Þórðar Daðasonar dóttursonar Brynjólfs biskups.        Blanda Fróðleikur gamall og nýr II. 1921-1923.

Loftur Guttormsson. 2000. Frá siðaskiptum til upplýsingar. R.             (Kristni á Íslandi III).

Torfi Jónsson: Æfisaga Brynjólfs Sveinssonar. Í: Jón   Halldórsson (sjá ofar).

Þorsteinn Erlingsson. 1937. Eiðurinn. R. 24, 44, 86, 134, 145,            152. bls.

———————————————

Lovsamling for Island… I bindi. Kmh. 1853.

1564   2.7.      Stóri Dómur.

1576   19.4.    Aabent Brev, at grove Syndere skulle                           aflöses i Domkirken.

1578    15.5.    Aabent Brev, at Aflösning for Hor                               skal i Island foregaae hos                                              Herredsprovsten.

1585    29.4.    Aabent Brev til Island, ang. at                                      Horsager og Blodskam ikke skal                                   straffes med Böder, men straffes efter                            Loven.

1587    2.6.      Ordinants, hvorledes ud i                                              Ægteskabssager paa Island dömmes                              skal.

1594    25.4.    Reskript til Lensmand Henrik Krag,                             om Aflösning m.m.

1607    2.7.      Kirkeordinants for Norge… Uddrag.

1625    16.12.  Aabent Brev ang. Fruentimmer, som                            ikke ville udlægge deres Barnefædre.

1629    30.6.    Althingis-Resolution om                                              Bestemmelsen af Straf for Præster,                              som begaae Hoer eller Leiermaal.

1646    10.12.  Reskript til Biskopperne i Island,                                 angaaende Præsters Leiermaal.