Brynjólfskirkja

Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson tók við Skálholtsstað og stóli 1639 var staður og kirkja í hrörlegu ástandi. Hann byggði upp hvort tveggja stórmannlega og sterklega með miklum tilkostnaði.

Kirkjunni er svo lýst á 18. öld að hún væri mikið há með tréturni sem í hangi klukkur, byggð í kross með 2 stúkum sinni á hvorri hlið, öll af timbri, tvísúðuð og glerglugguð og prýdd að innan með máluðum biskupamyndum.

Um kirkjubygginguna segir Jón prófastur Halldórsson:

Brynjólfur fékk og tilflutti ekki einasta þá bestu rekaviðu sem hann kunni að fá heldur og einnig bestillti hann utanlands frá mikla viðu. Svo anno 1646 kom hið síðara Eyrarbakkaskip nærri fullt með grenivið frá Gullandi, sem kostaði yfir 300 ríkisdali og hann ætlaði til kirkjubyggingarinnar […] Hann fékk til kirkjusmíðsins hina bestu og röskustu smiði til að saga, höggva og telgja viðuna. Voru þeir stundum 30 eða fleiri, suma til að smíða úr 60 vættum járns sem hann lagði til hákirkjunnar í gadda reksaum og hespur […] ekki hefur nú á seinni tíðum rammbyggilegra hús og af betri kostum verið gert af tré hér á landi en sú Skálholtskirkja.

Þessi vandaða og veglega kirkja stóð af sér landskjálftana 1784 sem lagði öll önnur hús staðarins í rústir. Að stafni til stóð Brynjólfskirkja allt til ársins 1850, þá orðin um 200 ára, þrátt fyrir slægt viðhald stundum.

← Til baka