HELGUHELGI á Sumartónleikum um Verslunarmannahelgina

Tónleikhaldið um verslunarmannahelgina er tileinkað minningu Helgu Ingólfsdóttur semballeikara og stofnanda Sumartónleikanna, sem hefði orðið sjötíu og fimm ára á þessu ári. Helga lést fyrir aldur fram árið 2009. Þetta er jafnframt síðasta helgin hjá Sumartónleikum í Skálholti á þessu sumri.

Fyrstu tónleikar vikunnar verða haldnir á fimmtudagskvöldið 3. ágúst klukkan 20. Þá flytja fjórir semballeikarar einleiksverk fyrir sembal og hafa valið til flutnings verk til heiðurs Helgu. Þetta eru þær Elín Guðmundsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir og Sólrún Franzdóttir Wechner, en fjórði semballeikarinn er hinn franski Brice Sailly sem kemur sérstaklega til Íslands til að taka þátt í Sumartónleikunum. Semballeikararnir leika verk eftir Couperin, Farnaby, Frescobaldi, Buxtehude, Leif Þórarinsson og Böhm.

Á laugardaginn þann 5. ágúst klukkan 14 mætir svo Barokkbandið Brák til leiks og þá verða fluttir konsertar fyrir þrjá og fjóra sembala og strengjasveit eftir Johann Sebastian Bach.  Klukkan 16 sama dag flytur Barokkbandið Brák einnig efnisskrána ​Niðurlenski greifinn og gleymdar gersemar, hljóðfæratónlist eftir Telemann, Wassenaer, Pergolesi og Fesch.

Sunnudaginn 6. ágúst verða svo þessar efnisskrár endurteknar á sömu tímum, Bach klukkan 14 og gleymdu gersemarnar klukkan 16.

Kolbeinn Bjarnason

Um helgina verða einnig fluttir tveir fyrirlestrar í Skálholtsskóla.Á laugardaginn klukkan 13 flytur Kolbeinn Bjarnason fyrirlestur sem hann nefnir 4. september 1969. Fyrstu sembaltónleikar Íslandssögunnar.
Klukkan 13 á sunnudag fyrirlesturinn „Cembalólaust“ land? þar sem hann segir frá iðkun barokktónlistar á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar, en Kolbeinn vinnur um þessar mundir að gerð bókar um líf og störf Helgu Ingólfsdóttur.

Nánari upplýsingar um starf Sumartónleikanna er að finna á http://www.sumartonleikar.is/

Aðgangur er ókeypis á Sumartónleika í Skálholti en frjálsum framlögum er veitt viðtaka við dyrnar. Aðsókn í sumar hefur verið mjög góð og greinilegt að landsmenn kunna að meta það nú sem fyrr að eiga möguleika á að hlýða á sígilda tónlist í Skálholti.