Kirkjan í kviku samfélagsins- málþing 22. og 23. ágúst 2017

Dagana 22. og 23. ágúst n.k. verður haldið málþing í Skálholti undir yfirskriftinni “Kirkjan í kviku samfélagsins”. Málþingið er haldið á vegum vígslubiskups í Skálholti og er hluti af dagskrá Skálholts í tilefni af 500 ára afmæli siðbótarinnar.

Markmið málþingsins er að bjóða upp á fyrirlestra og samtal um skilning þjóðkirkjunnar á stöðu sinni, hlutverki og áhrifum á öndverðri 21. öld og leggja þannig grunn að stefnumótun til framtíðar.

Fyrirlesarar munu draga fram myndir af stöðu þjóðkirkjunnar, bæði inná við og sem og út á við, í starfi safnaðarins, innra skipulagi, í þjóðkirkjulögum og í umfjöllunni í samfélaginu í dag.

Fyrirlesarar eru dr. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ, sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestur í Neskirkju og doktorsnemi, dr. Karl Sigurbjörnsson, fv. biskup Íslands, Trausti Fannar Valsson, dósent í stjórnsýslurétti við lagadeild HÍ, Ögmundur Jónasson, fv. alþingismaður og ráðherra og Steinunn Jóhannesdóttir, rithöfundur.

Sérstakur gestur málþingsins er dr. Michael Bünker, biskup Evangelísku kirkjunnar í Vín, og aðalritari GEKE/CPCE, Samtaka mótmælendakirkna í Evrópu. Hann mun fjalla um grundvöll samstarfs og samtaka evangelískra kirkna í Evrópu.

Sr. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti flytur upphafsorð. Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup íslands slítur málþinginu. Málþinginu stýrir sr. Þorvaldur Karl Helgason, verkefnastjóri á Biskupsstofu.

Málþingið sem er öllum opið hefst kl. 13.30 þriðjudaginn 22. ágúst og lýkur um kaffileytið á miðvikudegi. Til málþingsins er sérstaklega boðið fulltrúum á kirkjuþingi, kirkjuráði, auk biskups Íslands og starfsfólks á Biskupsstofu.

Málþingið er styrkt af biskupi Íslands og er kostnaði haldið í lágmarki. Þátttökugjald er aðeins 15 þús. og er þá innifalinn matur og gisting. Unnt er sækja málþingið að hluta.

Skráning er í síma Skálholts, 486 8870 eða með því að senda tölvupóst á skalholt@skalholt.is. Dagskrá málþingsins er að finna hér: Kirkjan í kviku samfélagsins. Málþing í Skálholti 22.-23. ágúst 2017.