Lætur af störfum sem vígslubiskup – en þjónar áfram

Séra Kristján Valur leggur biskupskrossinn á altarið

Séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti lét af störfum, sökum aldurs, á siðbótardaginn 31. október s.l. en mun þó þjóna áfram uns ný vígslubiskup tekur til starfa.

Hann lauk sínum störfum formlega með því að prédika við messu í Skálholtsdómkirkju sunnudaginn 29. október s.l. en á eftir bauð stjórn Skálholts  kirkjugestum til hádegishressingar í Skálholtsskóla að messu lokinni, í tilefni tímamótanna. Á siðbótardaginn 31. október leiddi séra Kristján Valur  kvöldguðsþjónustu í Skálholtsdómkirkju þar sem hann lagði biskupskápuna sem embættinu fylgir á gráðurnar og krossinn á altarið. Hvort tveggja verður svo næst notað við vígslu hins nýja vígslubiskups í Skálholti.

Séra Kristján Valur mun þó þjóna áfram fyrst um sinn vegna tafa á kjöri nýs vígslubiskups en  athugasemdir komu fram um að ekki hafi verið réttilega staðið að kosningu kjörnefndar a.m.k. í Dómkirkjuprestakalli. Kjörnefndarmenn sókna í Skálholtsumdæmi hafa kosningarrétt við kjör vígslubiskups, sem stendur nú yfir. Í ljósi ofangreinds ákvað kjörstjórn við vígslubiskupskjörið ákveðið að fresta seinni umferð kosninganna, sem hefjast áttu 6. nóvember nk. Kjörstjórn hefur óskað eftir því að Biskupsstofa afli upplýsinga um það hvernig staðið hefur verið að kjöri allra kjörnefnda í Skálholtsumdæmi. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir mun kjörstjórn taka ákvörðun um framhald málsins.

Séra Kristján Valur Ingólfsson var kosinn vígslubiskup í ágúst 2011 og vígður í Skálholtsdómkirkju hinn 18. september 2011 af biskupi Íslands herra Karli Sigurbjörnssyni. Hann tók við af séra Sigurði Sigurðarsyni (1944-2010) sem þjónað hafði frá árinu 1994 uns hann lést haustið 2010. Fyrstur vígslubiskupa til að hafa fasta búsetu í Skálholti eftir að lögum um vígslubiskupa var breytt árið 1989 var séra Jónas Gíslason (1926- 1998). Hann sat í Skálholti 1992 – 1994 er hann lét af störfum sökum heilsubrests.