Fellur niður – Meðvirkninámskeið 2017-fellur niður

Því miður þarf að fella niður þetta námskeið í þetta skiptið. Næsta meðvirkninámskeið verður auglýst síðar.

Dagana 15. til 19. maí 2017 verður boðið upp á tuttugasta námskeiðið í Skálholti um meðvirkni.
Óhætt er að fullyrða að þessi námskeið hafi vakið mikla athygli og hefur þátttakan verið afburðagóð frá fyrsta námskeiðinu sem haldið var í nóvember 2009.

Umsjón með námskeiðinu, hefur Sr. Anna Sigríður Pálsdóttir auk ráðgjafa frá Lausninni.

Námskeiðið hefst kl. 10.00 á mánudegi og því lýkur um kaffileitið á föstudegi. Hámarksfjöldi þátttakenda er 20 manns og vænta má biðlista á námskeiðið. Hægt er að skrá sig hér fyrir neðan.

Námskeiðsgjald fyrir einstakling í einstaklingsherbergi með sturtu og salerni og fullu fæði í fimm daga er eingöngu 127.000 kr.  Farið er fram á 50.000 kr staðfestingargreiðslu.

Hægt er að skipta greiðslum í tvo til þrjá mánuði.

Umsagnir um námskeiðið:

Meðvirkninámskeiðið í Skálholti

Lopapeysuuppskriftin af lífi mínu

Skráning „HÉR“

Hvað er meðvirkni?

Hugtakið meðvirkni er notað þegar lýst er líðan eða ástandi þess einstaklings sem vanrækir sjálfan sig, nær alltaf af því að hann verður virkari fyrir aðra en sig sjálfan. Þaðan er hugtakið komið: með-virkni.

Hugtakið er notað til útskýringar á einkennum sem einstaklingur upplifir félagslega, líkamlega, vitsmunalega, tilfinningalega og andlega við þessar aðstæður.

Þegar einstaklingurinn vanrækir þarfir sínar, verður það til þess að hann hættir að kannast við að hann hafi yfirleitt nokkrar þarfir, hann veit ekki hverjar þær eru, þekkir ekki tilfinningar sínar og alls ekki sinn eigin styrk.

Meðvirkni verður til við ákveðnar aðstæður, bæði hjá konum og körlum og meðvirkni fer ekki í manngreinarálit. Meðvirkur einstaklingur stendur nær alltaf í skugga annarrar manneskju.

Er munur á því að vera annarsvegar góðhjartaður og hugsa vel um aðra og vilja öðrum vel og hinsvegar að vera meðvirkur? Ef svo er hvar liggja þá mörkin?

Það heyrir ekki undir meðvirkni að vera gefandi og kærleiksríkur í garð annarra, síður en svo. En þegar einstaklingur gefur svo mikið af sér að hann á ekki lengur innstæðu fyrir því sem gefið er, þá tapar hann tengslum við sjálfa sig og tilfinningar sínar, þá er hann orðin meðvirk.

Hvernig er þá dagleg líðan meðvirks einstaklings?

Sá sem er meðvirkur er oftast þreyttur og dapur, undirlagður andlega og líkamlega. Í tengslum við fjölskyldu eða í öðrum félagslegum tengslum er hann ávallt að reyna að gera öðrum til hæfis. Leynt og ljóst reynir hann að vera eins og hann heldur að aðrir vilji að hann sé. Þetta veldur mikilli streitu sem svo aftur segir til sín á öllum sviðum lífsins.

Líkamleg líðan fer úr skorðum, fólk fær höfuðverk, vöðvabólgur, magaverki og jafnvel hjartsláttartruflanir. Á vitsmunasviðinu stangast draumar og óskir um lífið á við raunveruleikann. Tilfinningaleg líðan er ekki góð. Einstaklingurinn þekkir ekki tilfinningar sínar, hefur þess vegna litla stjórn á þeim, kann ekki að setja nafn á þær, hvað þá að staðsetja þær. Kvíði, óskilkgreindur ótti og óöryggi, reiði og vonbrigði verða ríkjandi í mannlegum samskiptum.

Andlega er ástandið oft dapurlegt, annaðhvort þorir einstaklingurinn ekki að treysta eða trúa því að æðri máttur sé til, eða þá að hann heldur að æðri máttarvöld séu sífellt með samsæri gegn honum persónulega.

Hvernig verður meðvirkni til?

Það geta legið til þess ýmsar ástæður af hverju einstaklingur verður meðvirkur og fer þar með að taka þarfir annarra fram yfir sínar eigin. Sumum eru skapaðar slíkar aðstæður í uppeldi, með því til dæmis að einhver á heimilinu er alvarlega veikur. Þá gerist það að „fókus“ allra á heimilinu beinist að þeim sem veikur er og aðrir meðlimir fjölskyldunnar gleymast og gleyma smám saman sjálfum sér og sínum þörfum. Þannig verður sjálfsmyndin óljós og sjálfsvirðingin ekki síður.

Meðvirk hegðun berst frá einni kynslóð til annarrar í uppeldi og gildismati. Ef að maður finnur ekki sjálfsvirðingu í sjálfum sér, þá sækir maður hana með því að leitast við að vera eitthvað fyrir aðra. Einstaklingum hættir þá til taka á sig hlutverk sem verða stíf og óhagganleg og þeir eiga oft erfitt með að láta hlutverk af hendi, jafnvel þó að þeirra sé ekki lengur þörf.

Hvað er þá til ráða?

Þetta námskeið er margreynt, því er ætlað að vera vettvangur til að finna nýjar leiðir. Finna nýjar leiðir til að losa sig út úr vítahring meðvirkni. Til þess að það takist er æskilegt að einstaklingurinn öðlist nýja þekkingu og breyti viðhorfum sínum. Það er mikilvægt að hann taki ábyrgð á öll sviðum lífs síns; líkamlegu ástandi, tilfinningum, vitsmunum, félagslegri stöðu og andlegri líðan. Á námskeiðinu er lögð áhersla á það að hjálpa þáttakendum að skilja stöðu sína, átta sig á því hvaða leiðir eru illfærar, hvaða viðhorf eru löngu úreld og gagnslaus og benda á nýjar leiðir

Námskeiðinu er ætlað að vera vettvangur til breytinga. Þar fá þátttakendur tækifæri til að skoðað stöðu sína, fræðast og nærast, andlega og líkamlega. Reynslan sýnir að á þessum vettvangi skapast traust milli þátttakenda sem gerir þeim auðveldara fyrir að deila reynslu sinni með öðrum sem glíma við sama vanda.

Allt kapp er lagt á að þátttakendur njóti sín sem best, að þeir fræðist um einkenni, úrlausnir og nýjar leiðir. Áhersla er lögð á að skapa traust til að hægt sé að deila reynslu sinni í hópstarfi og einkaviðtölum.

Frjáls þátttaka er í morgun- og kvöldbænum og hugleiðslustundum á kvöldin. Hverjum er það í sjálfsvald sett hvort þeir taka þátt eða ekki, en við bendum þó á að þessar stundir eru vettvangur til að öðlast innri ró og betri andlega líðan.

Það er ekki auðvelt að breyta rótgrónum hugsunarhætti og þess vegna eru námskeið sem þetta gagnleg til að vinna markvisst með einkenni meðvirkni. Við munum einnig gæta þess að benda á gagnlegar leiðir til stuðnings fyrir þátttakendur þegar heim er komið. Þannig kynnum við frá fyrsta degi 12-sporaleiðina sem upphaflega varð til meðal alkóhólista, leið sem hefur hjálpað gífurlegum fjölda fólks um allan heim.

Lögð er áhersla á að þátttakendur njóti frístunda, útivistar og hvíldartíma og þess gætt að allir eigi góða dvöl í Skálholti!

Skráning „HÉR“