Skálholtskórinn

SkálholtskórinnSkálholtskórinn var stofnaður fyrir vígslu nýrrar Skálholtsdómkirkju árið 1963 af dr. Róbert Abraham Ottóssyni, söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Meðlimir kórsins eru áhugafólk úr nágrenni Skálholts, en í uppsveitum Árnessýslu hefur löngum verið rík sönghefð og hefur kórinn fengið lof fyrir fallegan og metnaðarfullan söng.

Skálholtskórinn hefur verið svo lánsamur að hafa góða stjórnendur frá upphafi, fyrst dr. Róbert Abraham Ottósson, síðar Glúm Gylfason.  Hilmar Örn Agnarsson var dómorganista við Skálholtsdómkirkju frá 1991 til loka 2008. Hann blés nýju lífi í kórsöng í Skálholti og náði ágætum árangri með kórinn. Núverandi dómorganisti er Jón Bjarnason. Kom hann til starfa árið í maí 2009.

Auk tónlistarflutnings við helgiathafnir í Skálholtskirkju hefur Skálholtskórinn víða komið fram í seinni tíð, jafnt erlendis sem á Íslandi, og hann á að baki fjölbreyttan flutning verka af veraldlegum og andlegum toga. Má þar m.a. nefna árlega aðventutónleika í Skálholtskirkju með þekktum íslenskum tónlistarmönnum og hljóðfæraleikurum, flutning á Skálholtskantötu Páls Ísólfssonar árið 1993 í Skálholti, Gloriu Vivaldis árið 1999 í Skálholti og Fossvogskirkju, kirkjukantötunnar „Víst mun vorið koma“ eftir Sigvald Tveid árið 2001 í Skálholti, Þorlákshöfn og Langholtskirkju og þátttöku í Brynjólfsmessu Gunnars Þórðarsonar árið 2006 í Skálholti, Keflavík og Garfarvogi. Árið 2003 kom kórinn fram á listahátíð í Piran í Slóveníu og auk þess hefur hann komið fram á tónleikum í Þýskalandi, Frakklandi og á Ítalíu.Þetta er annar geisladiskur kórsins með trúarlegri tónlist, en árið 2005 kom út diskurinn „Skálholtskórinn á tónleikum“ með upptökum af Gloriu Vivaldis og fleiri verkum. Á þessum diski, sem tekinn var upp í Skálholtskirkju, flytur kórinn kirkjulega tónlist, með og án undirleiks. Fjórir sálmanna eru eftir dr. Róbert A. Ottósson, eða í útsetningu hans, í minningu hans.

Molar frá starfsárinu 2007

Þetta ár hefur verið annasamt hjá Skálholtskórnum. Eftir páska skrifaði kórinn undir samning við Stjórn Skálholts um messusöng í Skálholtsdómkirkju þar sem fram kemur að kórinn er dómkór kirkjunnar. Einnig var endurnýjaður samningur kórsins við sóknarkirkjur Skálholtsprestakalls. Eftir að fermingamessum lauk í vor tóku við æfingar fyrir Skálholtshátíð og áframhaldandi æfingar fyrir utanlandsferð kórsins til Ítalíu og páfagarðs.

Skálholtskórinn hélt tónleika á Skálholtshátíð, laugardaginn 21. júlí 2007. Voru þeir á vegum Sumartónleika í Skálholtskirkju í þetta sinn og báru titilinn „Söngarfurinn“. Þar var lögð áhersla á þjóðlega kirkjutónlist og sálma, sem margir hverjir eru á nýjum geisladiski kórsins, sem út kom í haust á vegum Skálholtsstaðar. Þóttu tónleikarnir takast vel og hlutu góða dóma. Messunni á Skálholtshátíð, sunnudaginn 22. júlí, var útvarpað að venju, og var í þetta sinn sungin katólsk messa, Missa Angelis. Að henni Komu, auk Skálholtskórsins, félagar úr kór Landakotskirkju.

Í lok júlí hélt Skálholtskórinn síðan í hálfs mánaðar kórferð til Ítalíu, þar sem hápunktur ferðarinnar var móttaka hjá Benedikti páfa 16. í móttökusal Vatikansins, miðvikud. 1. ágúst. Var sú stund kórfélögum mjög eftirminnileg. Kórinn hélt tónleika í Róm og í Sorrento, þar sem flutt voru verk af efnisskrá sumarsins, auk þess sem hann söng við katólskar messur í Pompei og Sorrento. Kom sér þá vel að hafa æft englamessuna fyrir Skálholtshátíð. Að lokum söng kórinn nokkur lög fyrir presta frá öllum heimshornum, á ráðstefnu presta í Palermo á Sikiley.

Náttúrufegurð er víða mikil á Ítalíu og þar sem leiðin lá eftir endilangri Ítalíu, frá Mílanó til Palermo á Sikiley, bar margt fyrir augu. En flestum kórfélögum er þó ferðin til Kaprí eftirminnilegust. Á tónleikunum í Róm söng Halla Margrét Árnadóttir söngkona með kórnum, en hún er búsett á Ítalíu. Skömmu eftir að við komum heim úr ferðinni, þann 22. ágúst, sungum við með henni og Hrólfi Sæmundssyni baritón, á styrktartónleikum í Salnum í Kópavogi, á vegum Bergmáls, líknarsamtaka til aðstoðar langveiku fólki. Voru það skemmtilegir tónleikar undir styrkri stjórn séra Hjálmars Jónssonar og ekki verra að geta orðið að liði í leiðinni.