Skálholtsfélagið

Skráning í Skálholtsfélagið (hér)

Skálholtsfélagið – fyrr og nú.

,,Í huga minn er greipt frá barnsaldri, að endurreisn og virðing Skálholts snúist ekki aðeins um staðinn sjálfan, kirkjulegt og sögulegt hlutverk hans, heldur einnig sjálfsvirðingu þjóðarinnar.”
Úr ræðu Björns Bjarnasonar 2003, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra.

Fyrir hálfri öld, á 6. áratug tuttugustu aldar, vann Skálholtsfélagið að því að endurreisa Skálholtsstað úr þeirri niðurlægingu sem staðurinn hafði liðið fyrir í hartnær tvær aldir. Félagið kom með myndarlegum hætti að uppbyggingunni, ásamt fjölmörgum heimamönnum. Auk þess bárust Skálholtsstað margar verðmætar og veglegar gjafir frá erlendum einstaklingum, einkum Norðmönnum, sem og frá ýmsum kirkjulegum samtökum.
Á sama tíma spurðu aðrir, hver væri tilgangurinn með endurreisn staðarins, þar sem ,,öll vötn féllu” þá til Reykjavíkur. Hvert yrði framtíðarhlutverk Skálholts með biskupinn sitjandi í Reykjavík?
Þessu svaraði eigandi staðarins, íslenska ríkið, með því að taka myndarlega þátt í endurreisninni og trúa síðan íslensku þjóðkirkjunni fyrir framtíð staðarins.
Það var því fyrir 50 árum að stjórnvöld á Íslandi ákváðu að færa kirkjunni Skálholtsjörðina að gjöf, með öllum gögnum hennar og gæðum. Íslenska þjóðkirkjan hafði reyndar frumkvæði í málinu, en naut um leið tiltrúar á Alþingi sem og margra alda kirkjusögu á staðnum. Í texta lagafrumvarps um afhendinguna eru vangaveltur um framtíð Skálholtsstaðar. Um leið er það talið ,,eðlilegt” að horfa til kirkjunnar í þeim efnum.
Eftirfarandi er orðrétt úr lagafrumvarpinu:
,,Til að þessi verðmæta alþjóðareign megi ávaxtast á komandi tímum til sem mestra nytja fyrir þjóðina í andlegu og menningarlegu tilliti þarf frumkvæði og forgögnu, sem sprettur af áhuga, vakandi ræktarsemi við þá erfð, sem helgar staðinn í meðvitund þjóðarinnar og samtök um að gera hana með tímbærum aðferðum frjóa fyrir nútíð og framtíð.”
Skálholtsfélagið hélt áfram að styðja við Skálholtsstað, ásamt fjölda hugsjónafólks nær og fjær, árum saman. En að því kom að félagið lagðist af.

Stjórn félagsins, fyrsta árið, ásamt vígslubiskupi, KVI. Frá honum talið_ JS formaður, HÞ féhirðir, KHG varaformaður, GI meðstjórnandi og KS ritari.Á Skálholtshátið sl. sumar var stofnað Skálholtsfélag hið nýja, á grunni hins eldra og því sett lög. Fram að fyrsta aðalfundi sem verður 20. júlí 2014 er skipuð bráðabirgðastjórn sem í sitja Guðmundur Ingólfsson frá Iðu, Halldóra J. Þorvarðardóttir prófastur Suðurprófastsdæmis, Jón Sigurðsson rekstrarhagfræðingur og fyrrverandi skólastjóri, K. Hulda Guðmundsdóttir frá Fitjum og Karl Sigurbjörnsson biskup.

Málþing um framtíð Skálholts, sem var haldið laugardaginn 19.október.

Lög Skálholtsfélagsins.

Skráning í félagið, félagsaðild er öllum opin!