Stjórn Skálholts

Stjórn Skálholts var skipuð af Kirkjuráði á fundi ráðsins þann 2.febrúar 2015 og jafnframt samþykkti  ráðið erindisbréf stjórnar. (Sjá síðar). Stjórnin er skipuð til fjögurra ára.
Aðalmenn:
Formaður: Drífa Hjartardóttir, bóndi og kirkjuþingsmaður
Kristófer Tómasson, sveitastjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps
Sr. Þorvaldur Karl Helgason, fyrrv. biskupsritari
Varamenn
Þórarinn Þorfinnsson, bóndi
Jónína Bjartmarz, lögfræðingur og kirkjuþingsmaður
Sr. Þorvaldur Víðisson, biskupsritari

Forsaga þess að skipuð var stjórn Skálholts er þessi:
Í byrjun árs 2006 ákvað Kirkjuráð að setja málefni Skálholts í nýjan farveg með skipan sérstakrar stjórnar Skálholts, eins og greint er frá í fundargerð Kirkjuráðs frá  10. og 11 janúar 2006. Þar segir:
Kirkjuráð samþykkti að skipa þegar í stað stjórn Skálholts skv. framkomnum hugmyndum, þar sem sr. Sigurður Sigurðarson, vígslubiskup er formaður og auk hans sitja í stjórninni kirkjuráðsmennirnir sr. Halldór Gunnarsson og Jóhann E. Björnsson. Er þetta gert samkvæmt samkomulagi biskups Íslands og Kirkjuráðs við vígslubiskup í Skálholti frá apríl 2004. Stjórnin mun hafa yfirumsjón með starfsemi sem fram fer á vegum staðar og skóla, framkvæmdasýslu og gerð árlegra starfs- og fjárhagsáætlana og eftirfylgd með þeim. Erindisbréf verður til umræðu og afgreiðslu hjá Kirkjuráði á næstu fundum. Stjórnin gangi frá tillögum að skipuriti fyrir staðinn, athugi hvort unnt sé að fela staðnum að taka að sér rekstur Skálholtsskóla og hefji undirbúning að ráðningu framkvæmdastjóra. Þá skilgreini stjórnin stöðu Skólaráðs Skálholtsskóla sem fagráðs og aðkomu ráðsins að gerð starfs- og fjárhagsáætlana. Jafnframt verði hugað að ráðningu nýs rektors, en stjórn og skólaráð geri sameiginlega tillögu um starfslýsingu (erindisbréf) rektors og auglýsingu um starfið.
Á kirkjuráðsfundi í júní 2011 ákvað Kirkjuráð að leggja stjórnina niður.
Á Kirkjuþingi 2013 kom stjórn Skálholts aftur til umræðu og í nefndaráliti Allsherjarnefndar var lagt til að Kirkjuráð myndi skipa stjórn Skálholts í því skyni að færa ábyrgð starfseminnar þar í auknum mæli heim í hérað, en af því varð ekki.   Á Kirkjuþingi 2014 var borin fram tillaga til þingsályktunar um sama efni.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að meginverkefni stjórnarinnar skuli vera eftirfarandi:-  að vinna betur að því að efla Skálholtsstað sem kirkjulega menningar- og menntastofnun – að skjóta traustari stoðum undir rekstrargrundvöll staðarins út frá því meginhlutverki hans sem kirkjulegri menningar- og menntastofnun í samráði við heimafólk og þær stofnanir ríkisins sem hagsmuna eiga að gæta á staðnum svo sem þau er koma að vörslu fornminja.
– að efla starfsemi Skálholtsskóla í samræmi við lög um Skálholtsskóla sem kveða á um að  skólinn sé kirkjuleg menningar- og menntastofnum sem starfi á grunni fornrar skólahefðar í Skálholti og norrænnar lýðháskólahefðar. ( Sbr. lög um Skálholtsskóla 1993 nr. 22 29. mars. http://www.althingi.is/lagas/134/1993022.html ).
Samkvæmt stefnumótun um fræðslumál sem samþykkt var á kirkjuþingi 2013 (sjá Gerðir kirkjuþings 2013 bls. 121) hefur Skálholt sérstöðu í skipan fræðslumála þjóðkirkjunnar. Þar er litið svo á að í Skálholti skuli vera miðstöð fyrir fræðslu og þjálfun starfsfólks, og  eftir því sem kostur er, hagnýtt nám djákna- og guðfræðinema. Sömuleiðis að þar geti farið fram símenntun presta og djákna.

Eftir umfjöllun í Laganefnd þingsins 2014 var borin upp og samþykkt eftirfarandi  Þingsályktun  um stjórn Skálholtsstaðar :

Kirkjuþing mælist til þess við kirkjuráð að skoða, hvort málefnum Skálholtsstaðar yrði það til gagns að skipuð yrði þriggja manna stjórn Skálholtsstaðar og jafn margir til vara, er annist í umboði biskups og kirkjuráðs, ásamt vígslubiskupi uppbyggingu og rekstur staðarins í samræmi við lög um afhendingu Skálholts frá 1963, starfsreglur kirkjuþings og samþykktir kirkjuráðs.
Eins og fyrr segir skipaði Kirkjuráð stjórn Skálholts  2. Febrúar 2015 og setti henni eftirfarandi Erindisbréf:

Erindisbréf fyrir stjórn Skálholts

Biskup Íslands og kirkjuráð hafa forræði um framkvæmdir og starfsrækslu á Skálholtsstað samkvæmt lögum. (Lög um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað, nr. 32/1963). Ennfremur ber kirkjuráð stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð á rekstri skólans fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Gerður skal samningur um þátttöku ríkissjóðs í rekstri hans. Kirkjuráð skipar skólaráð Skálholtsskóla, (Sbr. lög um Skálholtsskóla nr. 22/1993) og setur samþykktir um starfsemi hans.

1.    gr.
Samkvæmt samþykkt Kirkjuþings 2014 skipar kirkjuráð  þriggja manna rekstrarstjórn Skálholts til fjögurra ára í senn og þrjá til vara.

2.    gr.
Stjórn Skálholts annast daglega stjórn og rekstur Skálholtsstaðar í umboði Kirkjuráðs og í samstarfi við vígslubiskup Skálholtsumdæmis, skrifstofustjóra Skálholtsstaðar, skólaráð Skálholtsskóla, sóknarprest Skálholtsprestakalls og sóknarnefnd Skálholtssóknar. Almennt fyrirsvar Skálholtstaðar sé áfram í höndum vígslubiskups eins og samþykktir Kirkjuráðs frá febrúar 2012, mæla fyrir um.

3.    gr.
Vígslubiskup og skrifstofustjóri sitja fundi stjórnarinnar. Skrifstofustjóri ritar fundargerð og heldur utan um ákvarðanir stjórnar.

4.    gr.
Stjórn Skálholts skal leggja fram markviss áform um að auka tekjur staðarins og ná jafnvægi í fjármálum 2017. Stjórnin gerir árlega starfs – og rekstraráætlun og leggur fyrir kirkjuráð til samþykktar fyrir lok septembermánaðar. Starfs – og rekstrarár er almanaksárið. Stjórnin skal leita leiða til að auka tekjur staðarins.

5.    gr.
Reikningshald skal vera á Biskupsstofu.

6.    gr.
Stjórn Skálholts fundar svo oft sem þurfa þykir en eigi sjaldnar en mánaðarlega. Fundargerðir skulu sendar kirkjuráði reglulega.

7.    gr.
Stjórnin geri tillögur um nýtingu Skálholtsjarðarinnar í tengslum við gerð nýs deiliskipulags fyrir Skálholt í samvinnu við leigutaka jarðarinnar og leggi fyrir kirkjuráð.

8.    gr.
Stjórnin gangi frá samkomulagi um rekstur Skálholtsdómkirkju milli Skálholtssóknar og Skálholtsstaðar og um afnot annarra af kirkjunni eins og t.d. til helgiathafna, tónleika eða tónlistarupptöku.

9.    gr.
Stjórn Skálholts eigi samstarf við stjórn Skálholtsfélags hins nýja um stefnumál félagsins.

10.    gr.
Erindisbréf þetta skal endurskoðað í ársbyrjun 2016.

Ákvæði til bráðabirgða.
Stjórn Skálholts skal skila tillögum að stefnumótun, tillögum að tekjuaukningu og rekstaraáætlun vegna ársins 2015 og drög fyrir 2016 fyrir kirkjuráðsfund í maí nk.