Vígslubiskup

Sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup

Umdæmi vígslubiskups í Skálholtsumdæmi nær frá Stafafellskirkju í Lóni í austri að Árneskirkju á Ströndum  í vestri. Vígslubiskup Skálholtsumdæmis er Kristján Valur Ingólfsson, sem var kosinn vígslubiskup í ágúst 2011 og vígður í Skálholtsdómkirkju hinn 18. september 2011 af biskupi Íslands Herra Karli Sigurbjörnssyni. Hann tók við af séra Sigurði Sigurðarsyni (1944-2010) sem þjónað hafði frá árinu 1994 uns hann lést haustið 2010. Fyrstur vígslubiskupa til að hafa fasta búsetu í Skálholti eftir að lögum um vígslubiskupa var breytt árið 1989 var  séra Jónas Gíslason (1926- 1998). Hann sat í Skálholti 1992 – 1994 er hann lét af störfum sakir heilsubrests.

Sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup
Staða og starfsemi vígslubiskups í Skálholti fer samkvæmt lögum og starfsreglum og samþykktum Kirkjuráðs, sem samkvæmt lögum um afhendingu Skálholts frá árinu 1963 er æðsta stjórn Skálholts.
(Lög um heimild handa ríkisstjórninni að til þess að ahenda þjóðkirkjunni Skálholtsstað. Nr. 32/1963  http://www.althingi.is/lagas/129/1963032.html)
Í Þjóðkirkjulögunum (Lög um stöðu stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar nr. 76 /1997, http://www.althingi.is/lagas/nuna/1997078.html) segir svo um vígslubiskupa (gr. 16.)
Vígslubiskupar skulu vera tveir með aðsetur á hinum fornu biskupsstólum, í Skálholti í Biskupstungum og á Hólum í Hjaltadal. Þeir hafi tilsjón með kristnihaldi í umdæmum sínum og séu biskupi til aðstoðar um kirkjuleg málefni og annist þau biskupsverk er biskup Íslands felur þeim. Nánari ákvæði um starfssvið vígslubiskupa skal setja í starfsreglur, sbr. 59. gr.
Forseti Íslands skipar vígslubiskupa.

Núverandi vígslubiskup í Skálholti er elstur að vígslu.  Þess vegna gildir um hann 15. gr.  Þjóðkirkjulaganna, þar sem segir:  Um staðgengil biskups Íslands.
Í forföllum biskups Íslands kveður hann þann vígslubiskup sem eldri er að biskupsvígslu til þess að gegna embætti sínu um stundarsakir. Hið sama gildir sé biskup Íslands vanhæfur til meðferðar einstaks máls sem undir hann ber að lögum.
Nú fellur biskup Íslands frá eða lætur af embætti og skal þá sá vígslubiskup, sem eldri er að biskupsvígslu, gegna embætti hans þar til biskupskjör hefur farið fram og nýr biskup Íslands hefur fengið skipun í embætti sitt.

Starfsreglur sem Kirkjuþing setur kveða nánar á um  vígslubiskupa.   (http://kirkjuthing.is/log-og-reglur/starfsreglur/starfsreglur-um-vigslubiskupa-nr-9682006/)

Þar segir m.a. :

(1.gr) Umdæmi vígslubiskups í Skálholti nær yfir eftirtalin prófastsdæmi: Suðurprófastsdæmi.Kjalarnessprófastsdæmi.Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Vesturlandsprófastsdæmi.Vestfjarðaprófastsdæmi.

Í 2.gr  segir svo: Vígslubiskup starfar á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Í umboði biskups Íslands og eftir þeirri kirkjulegu skipan sem segir í lögum, reglugerðum og starfsreglum veitir vígslubiskup andlega leiðsögn og tilsjón innan kirkjunnar í umdæmi sínu, eflir kirkjulíf, vísiterar og annast sáttaumleitanir.
Og í 5.gr:  Vígslubiskupar bera ábyrgð á uppbyggingu biskupsstólanna eftir því umboði sem Kirkjuráð veitir. Þeir eru Kirkjuráði til stuðnings og samráðs í málefnum biskupsstólanna svo og öðrum kirkjulegum stjórnvöldum og koma fram í nafni staðanna og umdæmanna eftir því sem við á. Þeir bera ábyrgð á helgihaldi dómkirkna sinna í samráði við viðkomandi sóknarprest.
Þá segir í 7.gr:  Vígslubiskup skal annast sáttaumleitanir í umdæmi sínu þegar embættismönnum, trúnaðarmönnum eða starfsmönnum kirkjunnar, launuðum jafnt og ólaunuðum, vígðum jafnt og leikum, hefur ekki tekist að jafna ágreining sín á milli og sættir hafa ekki tekist í meðförum prófasts eða hann sagt sig frá málinu. Vígslubiskup skal ljúka sáttaumleitan sinni innan tveggja vikna að jafnaði, enda sé mál hvorki á hendi annarra kirkjulegra aðila á þeim tíma né til meðferðar fyrir dómsstólum. Vígslubiskupi er heimilt að kalla til aðstoðar fagfólk á sviði sem ágreiningsmál varðar. Vígslubiskup skilar biskupi Íslands skriflegu áliti ef sættir takast ekki.
Og í 11. og 12 gr segir svo :Vígslubiskup er biskupi Íslands til aðstoðar um kirkjuleg málefni. Hann annast biskupsverk að ósk biskups Íslands og í umboði hans, svo sem að vígja presta, djákna, kirkjur og kapellur. Hann hefur í umboði biskups Íslands tilsjón með að stefnumörkun kirkjunnar sé framfylgt hvað varðar helgihald, boðun, fræðslu og kærleiksþjónustu kirkjunnar í umdæmi sínu. Vígslubiskup hefur tilsjón með starfsmannahaldi einkum hvað varðar handleiðslu, símenntun og sálgæslu presta og starfsmanna kirkjunnar í umdæminu og beitir sér í þeim efnum ef tilefni er til.
Vígslubiskup vísiterar prestaköll og söfnuði í umdæmi sínu eftir áætlun biskupafundar. Vísitasía vígslubiskups beinist einkum að innri þáttum kirkjulífs, hinni vígðu þjónustu, helgihaldi, boðun, sálgæslu og safnaðarstarfi.

Um vígslubiskupinn í Skálholti gilda ennfremur samþykktir kirkjuráðs um störf hans sem forsjármanns Skálholtsstaðar. Núgildandi samþykktir eru frá því í febrúar 2012 og gilda því sérstaklega um þann vígslubiskup sem nú situr.

Þar segir sbr. fundargerð Kirkjuráðs
http://www2.kirkjan.is/node/11369.

Í 5. gr. starfsreglna um vígslubiskupa nr. 968/2006 segir:
“Vígslubiskupar bera ábyrgð á uppbyggingu biskupsstólanna eftir því umboði sem kirkjuráð veitir. Þeir eru kirkjuráði til stuðnings og samráðs í málefnum biskupsstólanna svo og öðrum kirkjulegum stjórnvöldum og koma fram í nafni staðanna og umdæmanna eftir því sem við á. Þeir bera ábyrgð á helgihaldi dómkirkna sinna í samráði við viðkomandi sóknarprest.”

Samkvæmt 5. gr. ofangreindra starfsreglna hefur vígslubiskup Skálholtsumdæmis eftirfarandi skyldur gagnvart Skálholti:

a) Vígslubiskup ábyrgist – í umboði kirkjuráðs – rekstur og starfsemi í Skálholti á grundvelli samþykktrar fjárhagsáætlunar.
b) Vígslubiskup hefur almennt fyrirsvar vegna Skálholts.
c) Vígslubiskup, í samráði við kirkjuráð, ræður skrifstofustjóra Skálholts, verkefnastjóra í hlutastarfi, og organista, sem ráðinn er í samstarfi við sóknarnefndir Skálholtsprestakalls.
d) Vígslubiskup ábyrgist innra starf Skálholtsskóla á grundvelli laga um skólann.
e) Vígslubiskup ábyrgist gerð árlegra starfs- og fjárhagsáætlana fyrir Skálholt.
f) Vígslubiskup ræður annað starfsfólk Skálholts en það sem að ofan greinir, semur starfslýsingu allra starfsmanna Skálholts og er yfirmaður þeirra.

Eftir að þessar samþykktir kirkjuráðs voru gerðar hefur þrennt  gerst sem máli skiptir. Kirkjuráð hefur að tillögu Kirkjuþings skipað stjórn Skálholts.(Sjá á öðrum stað hér á síðunni). Kirkjuráð hefur skipað nýtt skólaráð Skálholtsskóla. (Sjá á öðrum stað hér á síðunni). Kirkjuráð hefur samþykkt að Halldór Reynisson, verkefnissjóri fræðslumála á Biskupsstofu hafi aðsetur í Skálholti og sinni störfum sínum fyrst og fremst frá Skálholti.
Þessu til viðbótar hefur Skálholtsfélagið verið endurreist undir heitinu Skálholtsfélag hið nýja (sjá á öðrum stað hér á síðunni).

Um sitjandi vígslubiskup:
Kristján Valur Ingólfsson er fæddur 28. október 1947 í Dal í Grenivíkursókn í  Laufásprestakalli, sonur hjónanna Hólmfríðar Björnsdóttur frá Nolli og Ingólfs Benediktssonar frá Jarlsstöðum í Höfðahverfi.
Að loknu fullnaðarprófi á Grenivík, sótti Kristján Valur heimaskóla séra Sigurðar Guðmundssonar á Grenjaðarstað einn vetur, síðan Héraðsskólann að Laugum í Reykjadal í tvo vetur, og lauk  landspróf þaðan vorið 1964. Þá tók við Menntaskólinn að Laugarvatni 1964 – 1968 með stúdentsprófi þaðan. Settist  um haustið í Guðfræðideild Háskóla Íslands og lauk cand.theol prófi þaðan haustið 1974.  Stundaði framhaldsnám í kennimannlegri guðfræði við Háskólann Heidelberg í Þýskalandi 1977 – 1984 og aftur 1996-1997.
Eiginkona Kristjáns Vals er Margrét Bóasdóttir, söngkona, kórstjóri og viðskiptafræðingur MBA, verkefnisstjóri kirkjutónlistar Þjóðkirkjunnar frá ágúst 2014. Þau eiga synina Bóas sem er fatahönnuður og Benedikt sem er tenórsöngvari.

 

Heimasíða  www.kristjanvalur.is.
Pistlar, predikanir, spurningar og svör á www.tru.is

Hér má nálgast yfirlit yfir alla biskupa í Skálholti.