Sumarkvöld í Skálholti; Hildur Hákonardóttir fjallar um listaverkin á staðnum

Skálholtsdómkirkja og Skálholtsstaður geyma ýmis listaverk og þau verða umfjöllunarefnið á næsta sumarkvöldi í Skálholti miðvikudaginn 19. júlí n.k. en þá ætlar Hildur Hákonardóttir listakona með meiru að vera með leiðsögn. 

Þekktustu verkin eru altaristafla Nínu Tryggvadóttur og steindu gluggarnir eftir Gerði Helgadóttur en kirkjan sjálf og þær sem á undan henni voru verða einnig til umfjöllunar og hin umdeilda Þorláksbúð í samhengi við aðrar byggingar. Hildur fjallar um aðferðafræðina að baki gerð glugga Gerðar og tilurð kúbismans en einnig segir hún frá öðrum listaverkum, innlendri steinsmíð sem er að finna í kjallara kirkjunnar og utan húss og að lokum fjallar hún um tvö málverk í Skálholtsskóla.

Dagskráin hefst kl. 20 þann 19. júlí og stendur í u.þ.b. einn og hálfan tíma. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn. kaffiterían í Skálholtsskóla er opin á undan og á eftir og er hægt að fá keyptar þar veitingar.