Tónlistarveisla í Skálholtsdómkirkju á aðventu 2016

 

skalholt-adventaÞað verður sannkölluð veisla á aðventunni í Skálholti þegar kemur að tónleikum og aðventusamkomum.

Sunnudaginn 27. nóvember sem er 1. sunnudagur í aðventu verður fjölskyldumessa kl. 11:00  þar sem árleg aðventuhátíð barnastarfsins í Skálholtsprestakalli sér um messuna. Umsjón Bergþóra Ragnarsdóttir djáknakandídat. Organisti: Jón Bjarnason og sr. Jóhanna Magnúsdóttir sér um prestþjónustu.

Laugardaginn 3. desember kl. 17:00  verða hátíðlegir kórtónleikar þar sem fram koma Skálholtskórinn og sameinaðir kórar Rangárþings eystra, þessir kórar ætla að syngja saman sem einn rúmlega 50 manna blandaður kór. Karlakór Selfoss syngur líka nokkur lög. Einnig verðu boðið upp á einsöng Maríönnu Másdóttur sópran. Jóhann I. Stefánsson og Vilhjálmur I. Sigurðarson leika á trompeta. Flutt verður konsert í C-dúr fyrir tvo trompeta og orgel ásamt jólatónlist sem allir þekkja og eru í algjöru uppáhaldi hjá flytjendum á þessum tónleikum. Mjög hátíðlegir tónleikar! Tónleikagestum gefst líka kostur á því að syngja með í mörgum lögum á tónleikunum.

Mánudaginn 5. desember klukkan 14:00: Aðventuferð kórs eldri borgara Rangárþingi eystra sem heitir Hringur. Þau flytja nokkur lög í kirkjunni.

Miðvikudaginn 7. desember kl. 20:00  eru tónleikar kórs Menntaskólans að Laugarvatni.

Föstudagskvöldið 9. desember klukkan 20:00 verða svo glæsilegir tónleikar þar sem samstarf uppsveitakirkjukóra við þau Egil Árna Pálsson tenór og Þóru Gylfadóttur heldur áfram.  Þau eru að syngja nú á jólatónleikum í Skálholti 3. árið í röð. Skálholtskórinn og kirkjukórar Stóra- Núps og Ólafsvallakirkju syngja saman undir stjórn Þorbjargar Jóhannsdóttur og Jóns Bjarnasonar. Að þessu sinni leikur tónlistarhópurinn Cameractica en það eru. Ármann Helgason, Klarinett. Hildigunnur Halldórsdóttir, fiðla, Svava Bernharðsdóttir, víóla og Sigurður Halldórsson, selló.

Sunnudagskvöldið 11. desember kl. 20:30 er svo aðventukvöld með hefðbundnu sniði. Þetta er 3. Sunnudagur í aðventu og verður notaleg stund með ræðumanni, söng Skálholtskórsins sem og söng barna úr Bláskógaskóla.

Fimmtudagskvöldið 15. desember eru svo Kolbrún Lilja og Karítas Harpa með jólatónleika kl. 20:30. Þær stöllur eru á tónleikaferðalagi um suðurland í desember og syngja á tólf stöðum.